:: www.ljosmyndakeppni.is
InnskráningInnskráning

Nýskráning
Klukkan er 10:40

Reglur Apríl 2008

1.Notendaskilmálar

1.1. Skráning notanda

 • Allir notendur vefsins þurfa að gefa upp fullt nafn, heimilisfang, netfang og kennitölu við skráningu.
 • Notandi má eingöngu nota vefinn á eigin kennitölu.
 • Hver einstaklingur má eingöngu hafa einn notanda á vefnum.
 • Brot á reglum þessum varðar banni frá vefnum.

1.2. Ferðir

 • Ljosmyndakeppni.is hefur það að markmiði að standa fyrir ljósmyndaferðum eins oft og auðið er.
 • Auglýstar ferðir eru öllum opnar, þó að í sumum tilfellum geti sætafjöldi verið takmarkaður.
 • Einstaklingar yngri en 18 ára þurfa yfirlýst samþykki foreldra eða forráðamanna til að koma með í ferðir.
 • Ljosmyndakeppni.is ber enga ábyrgð á þeim sem fara í ferðir sem auglýstar eru á spjallsvæði ljosmyndakeppni.is.
 • Vefurinn ber enga ábyrgð á búnaði þeirra sem fara í ljósmyndaferðir, bílum eða hverjum öðrum hlutum sem skemmst geta eða eyðilagst.
 • Allir notendur hafa frjálsar hendur með skipulag ferða, hvar sem er og hvenær sem er.
 • Skipuleggjendur ferða skulu hafa samráð við keppnisráð um tilhögun á ferðakeppnum.

1.3. Höfundaréttur

 • Ljósmyndari á alltaf höfundarétt á myndum sem hann birtir á ljosmyndakeppni.is, samkvæmt höfundalögum.
 • Ljosmyndakeppni.is áskilur sér rétt til að birta allar myndir sem sendar eru í keppnir á léninu ljosmyndakeppni.is og öðrum lénum sem falla undir forsjá ljosmyndakeppni.is, svo sem ljosmyndun.is og undirlén þeirra.
 • Öll önnur notkun verður í samráði við viðkomandi ljósmyndara.

1.4. Skilmálar

 • Ljosmyndakeppni.is áskilur sér rétt til að breyta reglum þessum án fyrirvara. Notendur bera ábyrgð á því að fylgjast með reglunum og uppfærslum á þeim.
 • Stjórn ljosmyndakeppni.is tilkynnir notendum um breytingar.
 • Breytingar á reglum þessum taka gildi við birtingu.

2. Markmið, stjórn og ráð

2.1. Markmið ljosmyndakeppni.is

Markmið ljosmyndakeppni.is er að halda úti metnaðarfullum umræðu- og fræðsluvettvangi tengdum ljósmyndun og efla félagsskap áhugafólks um ljósmyndun.

2.2. Stjórn og ráð

Við ljosmyndakeppni.is starfa eftirfarandi hópar:

Stjórn
Stjórn mótar stefnu og markmið ljosmyndakeppni.is.
Stjórn tekur við umsóknum í ráðin sem talin eru hér að neðan.
Í stjórn sitja 5 notendur ljosmyndakeppni.is.
Netfang stjórnar er stjorn [ hjá ] ljosmyndakeppni.is

Fræðsluráð
Fræðsluráð hefur það hlutverk að halda utan um greinar og annað fræðsluefni sem ljosmyndakeppni.is berst.
Fræðsluráð hefur undirlénið wiki.ljosmyndakeppni.is á sinni könnu.
Netfang fræðsluráðs er fraedslurad [ hjá ] ljosmyndakeppni.is

Umræðuráð
Umræðuráð sér um daglegan rekstur spjallborðs ljosmyndakeppni.is.
Í umræðuráði sitja 11 meðlimir ljosmyndakeppni.is.
Netfang umræðuráðs er umraedurad [ hjá ] ljosmyndakeppni.is

Keppnisráð
Keppnisráð ákveður fyrirkomulag á keppnum á ljosmyndakeppni.is og skrifar keppnislýsingar.
Í keppnisráði sitja 5 meðlimir ljosmyndakeppni.is.
Netfang keppnisráðs er keppnisrad [ hjá ] ljosmyndakeppni.is

Úrskurðarráð
Úrskurðarráð fer yfir ljósmyndir í keppnum, gengur úr skugga um lögmæti mynda í samræmi við keppnisreglur.
Í úrskurðarráð sitja 5 meðlimir ljosmyndakeppni.is.
Netfang úrskurðaráðs er urskurdarrad [ hjá ] ljosmyndakeppni.is.

3. kafli - Keppnisreglur

Reglur þessar gilda nema annað sé sérstaklega tekið fram í keppnislýsingu.

Skilmálar

 • Keppnir skulu haldnar reglulega samkvæmt ákvörðunum keppnisráðs.
 • Allir skráðir notendur geta tekið þátt í keppnum.
 • Hver notandi getur einungis sent inn eina mynd í hverja keppni.
 • Notendur mega taka þátt í mörgum keppnum samtímis.
 • Tiltekið er í keppnislýsingu ef verðlaun eru í boði og hvernig þeim er útdeilt.
 • Ljosmyndakeppni.is áskilur sér rétt til að fella niður eða breyta verðlaunum án fyrirvara.
 • Ef mynd er vísað úr keppni, eftir að niðurstöður liggja fyrir, verður keppandi af verðlaunum.
 • Verðlaun eru ekki afhent fyrr en keppni hefur verið yfirfarin og niðurstöður staðfestar.
 • Keppendur verða að fylgja keppnisreglum sem gilda í öllum keppnum.
 • Ef undantekningar eru frá keppnisreglum í tiltekinni keppni eru þær teknar fram í keppnislýsingu

Myndataka og myndvinnsla

 • Mynd skal tekin á stafræna myndavél með rétt stilltri dagsetningu og klukku.
 • Mynd skal tekin á því tímabili sem keppnislýsing tiltekur.
  Ekki er heimilt að senda myndir í keppni sem teknar eru fyrir auglýstan keppnistíma.
 • Mynd verður að vera tekin á einum lýsingartíma (e. exposure) og ekki er leyfilegt að setja saman tvær eða fleiri myndir í eina í myndvinnsluforriti.
 • Óheimilt er að stækka myndflöt (canvas) til neins annars en að búa til sýnilegan ramma sem er vel aðgreinanlegur frá myndinni.
 • Mynd má vera að hámarki 800 pixlar, að ramma meðtöldum, á lengri kant.
 • Skráarstærð myndar má ekki vera meiri en 2MB (megabæti).
 • Til að gæta jafnræðis eru keppendur vinsamlegast beðnir um að birta ekki myndir sem þeir senda í keppnir annarsstaðar á netinu á meðan kosningu stendur. - Þetta ógildir þó ekki þáttökuna.
 • Keppandi má ekki sýna keppnismynd á spjallkerfi ljosmyndakeppni.is fyrr en að kosningu lokinni.
 • Heimilt er að laga minniháttar galla í myndum en samt sem áður er bannað að eyða, afrita, búa til eða færa þýðingarmikinn hluta myndarinnar. Við mælum sterklega með að þú takir fram allar breytingar sem gerðar eru á myndinni í reitinn "Um mynd og myndvinnslu" til að auðvelda yfirferð á myndum.
 • Allar breytingar á myndum sem eru gerðar í myndavélinni sjálfri eru leyfðar.
 • Ekki má bæta neinum texta við/á myndirnar eftirá.
 • Brot á reglum um myndatöku, myndvinnslu eða birtingar mynda á meðan kosningu stendur ógilda þátttöku.
 • Úrskurðarráð fjallar um mál þessi, og hefur úrskurðarvald í hverju tilfelli fyrir sig.

Takmörkun á innihaldi mynda

 • Myndir mega ekki eingöngu innihalda mynd af listaverki einu og sér, þar með talið þínum eigin. Leyfilegt er að nota listaverk ef það er sett á hugmyndaríkan hátt í hluta af myndbyggingu stærri heildar.
 • Nekt má sýna á listrænan hátt í myndum. Myndir mega ekki sýna kynfæri eða annað sem særir blygðunarkennd.
 • Nekt verður að meðhöndla á smekklegan hátt, og með tilliti til þess hóps sem skoðar ljosmyndakeppni.is. Birtingar á vefnum verða að vera við hæfi.
 • Fyrirsætur í nektarmyndum þurfa í öllum tilfellum að vera 18 ára eða eldri.
 • Myndum sem kunna að brjóta gegn þessum reglum verður umsvifalaust vísað úr keppni skv. ákvörðun úrskurðarnefndar.

Að lokinni keppni

 • Keppendur skulu vera viðbúnir því að senda til úrskurðarnefndar óbreytta og upprunalega ljósmynd, til þess að sanna lögmæti hennar.
 • Upprunalega myndin verður að innihalda EXIF upplýsingarnar gildar og óbreyttar.
  Til þess að viðhalda óbreyttu EXIF má ekki opna & vista frumrit með neinu forriti svosem Photoshop, GIMP, Picasa o.s.frv. Einnig er nauðsynlegt er að eiga skrána eins og hún kom úr myndavélinni, án milligöngu annarra forrita eins og Nikon Transfer o.fl. Listi forrita sem hafa ógildandi áhrif á EXIF er engan veginn teljandi og því er best að afrita frumrit af myndavél/minniskorti HANDVIRKT til þess að tryggja að frumrit ljósmyndar haldist óbreytt.
 • Ef keppanda tekst ekki að útvega mynd áður en 3 dagar eru liðnir frá því að óskað er eftir henni verður myndin dæmd úr keppni.
  Ef ekki hefur borist upprunaleg mynd innan þriggja daga mun úrskurðarráð hafa samband og óska á ný eftir réttu frumriti og veita þar með 24 klst. lokafrest til þess að útvega óbreytt frumrit. Eftir þann tíma mun úrskurður standa og engin frekari tækifæri til leiðréttinga verða veitt. Ef vafi leikur á um að mynd hafi skilað sér til úrskurðarráðs, má hafa samband við meðlimi þess með því að senda fyrirspurn á urskurdarrad@ljosmyndakeppni.is. Vinsamlega athugið að ekki verður mögulegt að fá fyrirfram úrskurð um hvort mynd muni standast reglur eða ekki, heldur eingöngu staðfestingu á því að mynd hafi skilað sér til úrskurðarráðs.
 • Hverja mynd má aðeins senda í eina keppni, þrátt fyrir að myndin sé unnin á mismunandi vegu. Sé mynd send í fleiri keppnir verður hún dæmd úr leik í öllum keppnunum.

Kosning

 • Leynileg kosning um myndir hverrar keppni stendur í eina viku.
 • Notandi skal gefa hverri mynd einkunn og gæta sanngirni í einkunnagjöf sinni.
 • Til að atkvæði kjósanda hafi áhrif þarf hann að gefa a.m.k. 50% mynda í keppninni einkunn.
 • Gefin meðaltals einkunn hvers notanda er birt á sniðsíðu viðkomandi.
 • Ef stjórn vefsins kemst að þeirri niðurstöðu að um óheiðarlega kosningu sé að ræða verður einkunn notandans tekin út, notandinn bannaður í viku og myndin úrskurðuð ólögleg.
 • Úrskurðir stjórnar varðandi þessi mál eru meðhöndlaðir sem trúnaðarmál, ef aðstæður leyfa, en þó getur reynst nauðsynlegt að útskýra opinberlega breytingar á niðurstöðum keppna.
Ábyrgð okkar
 • Aðstandendur ljosmyndakeppni.is munu aldrei láta þriðja aðila í hendur persónulegar upplýsingar, svo sem kennitölu, nema með upplýstu samþykki hvers og eins.
 • Við munum reyna eftir okkar bestu getu að sjá til þess að allar keppnir fari heiðarlega fram og engin brögð séu í tafli. Ef þú hefur grun um misnotkun á einhvern hátt skaltu hafa samband við stjórn ljosmyndakeppni.is á netfangið stjorn [ hjá ] ljosmyndakeppni.is

4. Spjallborðsreglur

Spjallborðið

 • Á spjallinu gilda almennar umgengnis- og kurteisisreglur.
 • Ekki koma illa fram við aðra og ekki túlka viðbrögð annara illa.
 • Með því að taka þátt á spjallinu á ljosmyndakeppni.is þá skuldbindur þú þig til að vinna að markmiðum vefsins.
 • Spjallið er opið almenningi - allir sem eru á internetinu geta skoðað ljosmyndakeppni.is. Höldum umræðunni uppbyggilegri og jákvæðri.
 • Notendur ljosmyndakeppni.is eru á öllum aldri, hafa mismunandi bakgrunn, mismikla reynslu af ljósmyndun, eru misflinkir á tölvur og svo framvegis.
  Þetta þýðir að við getum ekki ætlast til þess að aðrir notendur vefsins hugsi eða geri eins og við sjálf.
 • Virðing er mikilvæg í samskiptum, líka á netinu, virtu skoðanir annara. Taktu tillit til gildismats og blygðunarkenndar annara.
 • Mundu að verðmætustu innleggin í umræðuna eru þau sem hjálpa öðrum að taka betri myndir eða auka skilning þeirra.
 • Þú berð ábyrgð á því sem þú segir eða gerir hér, ljosmyndakeppni.is ber ekki ábyrgð á athöfnum þínum eða annara notenda.
 • Komum vel fyrir og verum sjálfum okkur og samfélaginu til sóma.
 • Ekki tala um, eða benda á málefni sem tengjast stolnum hugbúnaði.

Þræðir og innlegg

 • Athugaðu áður en nýr þráður er búinn til hvort búið sé að fjalla um efnið í öðrum þræði. Leitin á spjallinu er nokkuð öflug þó hún sé ekki fullkomin.
 • Nota skal lýsandi þráðaheiti. Ekki nota almenn nöfn eins og "Hjálp." Betra er að búa til þráð með nafninu "Hjálp vegna mikils noise í Fuji f50."
  Við áskiljum okkur rétt til að breyta villandi þráðaheitum.
 • Búum alltaf til þráðinn í þeim flokki sem lýsir efni þráðarins best. Ekki setja þráðinn í "Almennt spjall" nema þráðurinn passi alls ekki inn í annan flokk.
 • Ekki senda sömu fyrirspurnina inn mörgum sinnum í marga flokka. Veldu flokkinn vel og byrjaðu þráðinn þar.
 • Vanda skal innlegg. Taktu þér tíma og vandaðu uppsetningu, frágang og stafsetningu.
 • Ekki nota "Breyta" takkann til að eyða innleggjum eða til að eyða þráðarheiti. Saga þráðanna er mikilvæg.
 • Þetta á eins við um söluþræði sem og þræði á almenna spjallinu.

Söluþræðir

Notendum ljosmyndakeppni.is gefst kostur á að selja notaðan búnað á auglýsingasíðu ljosmyndakeppni.is. Þar er gert ráð fyrir ljósmyndatengdum búnaði svo sem:
 • Myndavélar
 • Linsur
 • Þrífætur
 • Flöss
 • Batterí og aukahlutir fyrir ofantalið
 • Töskur og hlífar fyrir ljósmyndabúnað
 • Búnaður í ljósmyndastúdíó
 • Búnaður í myrkraherbergi
 • Bækur, tengdar ljósmyndun
 • Tölvur (þó ekki leikjatölvur eða tölvuíhlutir)
 • Skjáir
 • Skjá- og prentstillar (litstillitæki)
 • Prentarar
 • Skannar (myndlesarar)
 • Myndbandstökuvélar
 • Hýsingar og harðir diskar
 • GPS Tæki
Auglýsingasíðan er ekki til að selja eða skipta á hlutum sem ekki tengjast ljósmyndun svo sem:
 • Bílar
 • Fasteignir
 • Húsgögn
 • Símar og mp3 spilarar (þó þeir séu með myndavél eða lófatölvu eiginleikum)
 • Tölvuíhlutir; vinnsluminni, örgjörvar, móðurborð o.þ.h.
 • Heimilistæki
Notendum er bent á aðra söluvefi til að selja hluti sem passa ekki inn á ljósmyndakeppni.is, t.d. Partalistann, Vaktina og Kassi.is

Þegar sölu/kaup ferli er lokið á ekki að eyða innleggjum sem lýsa því sem var til sölu/kaups. Þegar sölu/kaupum er lokið er við hæfi að upplýsa aðra notendur um það, t.d. með því að breyta heiti þráðar þannig að fremst í þráðarheitið komi [Selt].
Dæmi um nöfn á söluþráðum:
"Canon 350D"
og þegar sölu er lokið:
"[Selt] Canon 350D"
Dæmi um nöfn á kaupþráðum:
"Nikon D40 með kit linsu"
og þegar kaupum er lokið:
"[Selt] Nikon D40 með kit linsu"

ATH. Auglýsingasíða ljosmyndakeppni.is
  er ekki vettvangur fyrir vörur og þjónustu fyrirtækja.
  er ekki vettvangur fyrir sölu á nýjum ónotðuðm vörum.
Sendið allar fyrirspurnir til tilsolu(hjá)ljosmyndakeppni.is

Undirskriftir

 • Miðað er við að undirskriftir notenda séu ekki stærri en 3 línur í 10 punkta leturstærð. Lengd línu sé ekki meiri en 30 stafabil.
 • Ef undirskriftin er með myndborða þá er miðað við að hæð borðans sé ekki meiri en 30 pixlar. Breidd myndborða í undirskrift skal ekki vera meiri en 300 pixlar.

Avatar (myndin af þér)

 • Ekki er heimilt að nota áberandi og truflandi hreyfimyndir í avatar á spjallborðinu.
 • Athugið að höfundalög gilda um avatar myndir eins og annað höfundaréttarvarið efni. Ekki stela myndum sem eru í eigu annara


Powered by phpBB © 2001, 2005 phpBB Group